Vítamínum er gjarnan skipt upp í fituleysanleg vítamín og vatnsleysanleg vítamín. A-, D-, E-, og K- vítamín eru fituleysanleg. Ef þeirra er neytt í stórum skömmtum safnast umframmagn fyrir í vefjum líkamans.

B- og C- vítamín eru vatnsleysanleg og safnast ekki fyrir í líkamanum. Ef þeirra er neytt í stórum skömmtum skilst umframmagnið út í þvagi.

A- vítamín
A- vítamín er mikilvægt fyrir allan frumuvöxt. Það stuðlar að heilbrigðri sjón, er nauðsynlegt fyrir húð, slímhúð, bein og tennur og dregur úr hættu á krabbameini.

Helstu gerðir A- vítamíns eru virku efnin retínól og beta karótín.
Retínól er aðeins að finna í dýraríkinu en mest er af því í lýsi, lifur, eggjum og mjólkurafurðum. Beta karótín er aðeins í ávöxtum og grænmeti og þá helst í grænu og gulu grænmeti s.s. spínati, gulrótum, næpum, fíflablöðum, myntu, steinselju, apríkósum og melónum.

B1-vítamín
B1-vítamín er nauðsynlegt fyrir starfsemi taugakerfis og efnaskipti kolvetna og jafnframt fyrir starfsemi meltingarfæranna og hjartans. Það tekur þátt í mikilvægum efnaskiptum í taugavef, í hjartanu, við myndun rauðra blóðkorna og efnaskiptum sem tengjast viðhaldi vöðva.

B1-vítamín er að finna í flestum próteinríkum fæðutegundum en þær fæðutegundir sem eru auðugastar af því er kjötmeti, t.d. svínakjöt, hjörtu og lifur. Einnig er töluvert af B1-vítamíni í ölgeri, hveitikími, klíði, heilu hveiti, heilum höfrum, hýðishrísgrjónum, hnetum og fræjum, sojabaunum, mjólk og mjólkurafurðum, laufmiklu grænmeti, kartöflum og rófum.

B2-vítamín
B2-vítamín er nauðsynlegt fyrir orkulosun úr fitu, kolvetnum og próteinum. Svo og fyrir eðlilega starfsemi augna og ver augað fyrir útfjólubláum geislum og tekur þátt í að stjórna ljósmagni til augans.

B2-vítamín er að finna í flestum fæðutegundum en auðugustu uppspretturnar eru innmatur, s.s. lifur og hjörtu en einnig er það að finna í mjólkurafurðum, grænu grænmeti, ávöxtum, hveitikími, heilu korni, möndlum og sólblómafræjum.

B3-vítamín
B3-vítamín getur lækkað kólesterólmagn og magn tríglýseríða og dregið þannig úr hættu á hjarta- og æðasjúkdómum. Það eykur magn góða kólesterólsins (HDL) í líkamanum en HDL tekur þátt í að flytja kólesteról út úr líkamanum. B3-vítamín er æðavíkkandi og getur því leitt til lækkaðs blóðþrýstings. Sumir segja að það geti dregið úr höfuðverkjaköstum sem fylgja mígreni. Aðrir telja að nauðsynlegt sé að taka það inn áður en þeir fái kast því að ef það er tekið inn í miðju kasti þá versni mígrenið til muna.
Rannsóknir hafa sýnt að B3-vítamín hefur reynst vel í meðferð gegn flogaveiki ef það er gefið með flogaveikilyfjum.

B3-vítamín er helst að finna í mögru kjöti, fiski og kjúklingum. Líkaminn getur einnig myndað B3-vítamín úr próteinum ef nægjanlegt magn af B6-vítamíni er til staðar í líkamanum.

B5-vítamín
B5-vítamín leikur eitt af aðalhlutverkunum við að breyta fitu, kolhýdrötum og próteinum í orku. Talið er að eitt af umbrotsefnum B5-vítamíns stuðli að lækkun kólesteróls og dragi þannig úr hættunni á hjarta- og æðasjúkdómum. B5-vítamín er nauðsynlegt til að líkaminn geti myndað D-vítamín, það örvar ónæmiskerfið, hraðar græðslu sára og skurða, þykir draga úr einkennum liðagigtar, dregur úr hárlosi og gránun hárs og sumir telja að það geti hægt á öldrun. B5-vítamín er hluti af kóensím -A sem er mikilvægt í allri orkumyndun svo og myndun sterahormóna.

B5-vítamín er víðast hvar að finna, bæði í jurta- og dýraríkinu eins og nafnið pantótensýra bendir til, en það er dregið af gríska orðinu pantos sem merkir „alls staðar“. B5-vítamín er að finna í fæðunni auk þess sem það getur myndast í þörmunum með aðstoð þarmagerla. Fæðutegundir sem eru auðugar af B5-vítamíni eru kjöt, nýru, lifur, hjörtu, fiskur, egg, korn, hveitikím, klíð, kartöflur, ávextir og grænt grænmeti svo eitthvað sé nefnt. Um helmingur B5-vítamíns í korni eyðileggst við mölun svo heppilegra er að neyta brauðs með heilum kornum en möluðum.

B6-vítamín
B6-vítamín er mikilvægt líkamanum og t.d. þarfnast yfir 60 ensím B6-vítamíns svo þau geti starfað eðlilega. B6-vítamín styrkir ónæmiskerfið og getur verið krampa stillandi og varnað taugaskemmdum. Nægilegt magn af B6-vítamíni í líkamanum getur dregið úr hættu á húðsjúkdómum og getur t.d. gagnast gegn gelgjubólum. B6-vítamín er mikilvægt fyrir myndun líkamans á adrenalíni og serótóníni. Skortur á serótóníni er oft tengdur þunglyndi og örum skapbreytingum. Tíðaþrautir geta t.d. orsakast af slíkum skorti, enda sýna margar rannsóknir fram á gagnsemi B6-vítamíns gegn tíðaþrautum. Einnig má benda á að B6-vítamín gagnast konum á breytingaskeiðinu.

B6-vítamín er að finna í flestum fæðutegundum en helstu uppsprettur eru fiskur, t.d. lax og silungur, kjöt, kjúklingur, egg og gulrætur.

B12-vítamín
B12-vítamín, ásamt járni og fólínsýru, er nauðsynlegt fyrir eðlilega blóðmyndun. B12-vítamín gegnir mikilvægu hlutverki í viðhaldi taugakerfis, þar með talið fruma til heilans. Einnig er það nauðsynlegt fyrir heilbrigðan vöxt, húð og slímhúð.

B12-vítamín er helst að finna í mögru kjöti, kjúklingum, fiski, mjólk og eggjum. Þeir sem borða eingöngu grænmeti þurfa að gefa þessu vítamíni sérstakan gaum þar sem kóbalmínskortur getur haft mjög alvarlegar afleiðingar.

C- vítamín
C- vítamín er nauðsynlegt svo að sár geti gróið og það eykur varnir líkamans, þar með talið ónæmiskerfið, gegn ýmsum sýkingum. Líkaminn þarfnast aukins C- vítamíns þegar hann er undir álagi.

Rannsóknir benda til þess að C- vítamín dragi úr hættu á hjarta- og æðasjúkdómum, háþrýstingi, fituútfellingu æðaveggja og augndrera.

C- vítamín dregur úr ófrjósemi karla. Stórir skammtar (1-3 g í nokkrum skömmtum á dag) af C- vítamíni hafa reynst gagnlegir við hægðatregðu en best þykir að taka það í duftformi. Konur sem taka inn getnaðarvarnarlyf eiga ekki að taka inn meira en 1 g á dag. C- vítamín er nauðsynlegt fyrir framleiðslu kollagens, sem er helsta stuðningsprótín húðarinnar og getur því hjálpað til við að halda húðinni góðri.

Fæðutegundir sem eru auðugar af C- vítamíni eru fyrst og fremst ferskir ávextir og grænmeti. T.d allir sítrusávextir eins og sítrónur og appelsínur, kiwi, sólber, jarðarber, rifsber, paprika, kartöflur, hvítkál, tómatar, blómkál, grænt laufmikið grænmeti og brokkál.


D- vítamín
D- vítamín er mörkum þess að vera vítamín og hormón. Mannslíkaminn getur myndað D- vítamín fyrir áhrif sólarljóssins en húðin framleiðir það þegar hún verður fyrir slíkum áhrifum.

D- vítamín er nauðsynlegt fyrir nýtingu kalks og fosfórs úr fæðunni og þar með fyrir vöxt og viðhald beina og tanna. Rannsóknir á beinþéttni hjá eldra fólki leiða ítrekað í ljós nauðsyn þess að það taki inn D- vítamín til að koma í veg fyrir beinþynningu. D- vítamín hefur gagnast ákveðnum hópi í meðferð gegn psoriasis húðsjúkdómi en sólarljós hefur oft góð áhrif á psoriasiseinkenni.

D- vítamín er í tiltölulega fáum fæðutegundum. Helstu uppsprettur eru þorskalifur og lýsi en einnig er töluvert í feitum fiski eins og laxi, síld og lúðu svo og í fræspírum, sveppum, sólblómafræjum, mjólkurafurðum og eggjum.

E- vítamín
E- vítamín verndar líkamann gegn oxun á fitu og öðrum efnum sem geta oxast í vefjum líkamans. E- vítamín stuðlar að verndun fruma líkamans. Það aðstoðar við súrefnisflutning, bætir blóðrásina og hefur áhrif á útvíkkun æða. Það er náttúrulegur storkuvari og vinnur því gegn æðakölkun. E- vítamín dregur úr hættu á kransæðasjúkdómum og verndar gegn áhrifum mengunar t.d. sígarettureyks. Það dregur úr krampa í vöðvum, s.s. sinadrætti. Rannsóknir hafa sýnt að E- vítamín getur gagnast mjög vel við hitakófi og þurrki í leggöngum við og eftir tíðahvörf.

Margir hafa borið E- vítamínolíu á brunasár og fleiður með góðum árangri, en hún hefur græðandi áhrif og kemur í veg fyrir öramyndun.

E- vítamín er að finna í grófu mjöli, jurtaolíum, eggjum, grænu laufguðu grænmeti, sojabaunum, hveiti-, rúg- og maískími og spínati.

K- vítamín
K- vítamín er fituleysanlegt vítamín en örverur í meltingarveginum framleiða mestan hluta þess K- vítamíns sem maðurinn þarfnast.

K- vítamín er þekktast fyrir þátt þess í blóðstorknun og við að halda blóðflögum heilum. Þáttur þess við myndun og viðhald beina gerir það mikilvægt í baráttunni við beinþynningu.

Stærsta uppspretta K- vítamíns er í eðlilegri gerlaflóru þarmanna en auk þess er K- vítamín að finna í flestum fæðutegundum.

Bíótín
Bíótín myndast m.a. í þörmum en einnig fæst það úr fæðunni. Bíótín hefur verið kallað ýmsum nöfnum s.s. B7- vítamín, H- vítamín, kóensím R, bios, bios II og Protective factor X. Ástæðan fyrir öllum þessum nöfnum er sú að efnasambandið var einangrað í mismunandi löndum á tiltölulega skömmum tíma og hver hópur vísindamanna gaf efninu sitt heiti.

Bíótín hefur áhrif á heilbrigði hárs, hárvöxt og hárlos. Það getur dregið úr gránun hárs og skallamyndun.

Bíótín er helst að finna í innmat, s.s. nýrum og lifur, sveppum, bönunum, haframjöli og sojabaunum.

Fólínsýra
Fólínsýra flokkast með B- vítamínum en er einnig þekkt undir heitinu fólasín.

Fólínsýra er nauðsynleg fyrir alla frumuskiptingu og fyrir heilbrigt batakerfi. Hún virðist gagnast vel gegn frumubreytingum í leghálsi. Rannsóknir benda til þess að stórir skammtar, 5 mg tvisvar á dag, geti dregið úr forstigsbreytingum á krabbameini í legi. Fólínsýruna þarf að taka í þrjá mánuði daglega svo hún geri sitt gagn.

Dökkgrænt grænmeti er aðaluppspretta fólínsýru, s.s. spínat, kál, spergilkál og annað grænt lauf en einnig er kjöt, og þá sérstaklega innmatur, ríkt af fólínsýru, fiskur, baunir, hnetur og egg. Fólínsýra er viðkvæm fyrir suðu og ljósi og fólínsýra í korni brotnar auðveldlega niður við vinnslu þess.

Inósítól
Inósítól telst til B- vítamína og er vatnsleysanlegt. Ekki finnst jafn mikið af neinu fjörefni í líkamanum og inósítóli, fyrir utan níasín, en líkaminn getur framleitt inósítól í meltingarfærunum.

Inósítól vinnur með kólíni við niðurbrot og vinnslu fitu og kólesteróls.
Inósítól er að finna í himnu fruma og er mikilvægur þáttur í viðbragði þeirra við áreiti, taugaboðum og stjórnun starfsemi ensíma. Talið er að það geti dregið úr kvíða og svefnleysi. Inósítól getur dregið úr hárlosi og talið er að það geti komið í veg fyrir exem.

Fæðutegundir sem eru auðugar af inósítóli eru sítrusávextir, grænmeti, hnetur, baunir, hýðishrísgrjón, ölger, melassi og hveitikím. Einnig er það að finna í innmat svo sem hjörtum, lifur og nýrum, sérstaklega hjá nautgripum.

Borgartúni 24 105 Reykjavík
Sími: 585 8700

Opnunartími:
Virka daga kl. 9-20
Laugardaga kl. 11-17
Veitingastaður og verslun
Mikið úrval af lífrænum og náttúrulegum mat-, snyrti- og hreinlætisvörum, fæðubótarefnum og náttúrulegum lausnum.

Nýr matseðill og girnileg opnunartilboð.

Tökum fagnandi á móti þér.

Endilega fylgist með okkur á samfélagsmiðlunum okkar.