Ég hljóp á eftir rollum út um víðan völl

Helga Margrét Þorsteinsdóttir frjálsíþróttakona

Maður Lifandi er stoltur styrktaraðili Helgu Margrétar. Viðtal: Þorgrímur Þráinsson.

Þeir sem eru sérfræðingar í frjálsum eru sannfærðir um að Helga Margrét muni fara á verðlaunapall á Ólympíuleikum eða heimsmeistaramóti í sjöþraut ef hún sleppur að mestu leyti við meiðsl. Hún er engri lík og einstök íþróttakona. Helga Margrét ólst upp á Reykjum 2 í Hrútafirði. Hún er á fjórða og síðasta ári á náttúrufræðibraut við Menntaskólann við Hamrahlíð. Hugur hennar leitar út þar sem draumurinn er að gerast atvinnukona í íþróttum. Að öðru leyti hefur hún mestan áhuga á að starfa í heilbrigðisgeiranum og þá gjarnan með íþróttamönnum.

Hvernig verður sveitastelpa afrekskona:
Ég held að sveitalífið sé virkilega góður jarðvegur fyrir afreksmann í íþróttum. Í stað þess að hanga inni í tölvunni eða horfa á sjónvarpið var ég alltaf úti að leika mér eða hjálpa til við búskapinn. Ég þurfti ósjaldan að hlaupa á eftir rollum út um víðan völl og fékk auðvitað mikla æfingu út úr því. Í sveitinni er andrúmsloftið afslappað og það er nægur tími til að hugsa um hvað mann langar til að afreka í framtíðinni. Hugsunin og draumurinn er til alls fyrst og í kjölfarið er svo hægt að byggja ofan á það og vinna sig í átt að markmiðinu.

Af hverju ertu svona nautsterk:
Ef þú heldur að ég sé nautsterk ættirðu að sjá hann pabba minn! Hann var (og er svo sem ennþá, orðinn 57 ára) algjört heljarmenni og var kallaður Hrútfirðingurinn hrausti þegar hann keppti í Íslandsglímunni hérna á árum áður. Ætli ég sé ekki aðallega bara heppin með genasamsetningu í þeim efnum en svo hef ég auðvitað verið dugleg að æfa og þá er styrkurinn fljótur að koma.

Helstu afrek í sveitinni:
Ætli það sé ekki að hafa haft endalausa þolinmæði í að elta Gróu systur mína og vinkonur hennar út um allar trissur í von um að fá að leika við þær. Ég áttaði mig ekki á því fyrr en löngu seinna að þetta var ekki eltingaleikur heldur voru þær ætíð að reyna að stinga mig af. En ég náði þeim á endanum og í dag erum við allar perluvinkonur.

Af hverju frjálsar:
Frjálsar eru krefjandi íþrótt þar sem reynir á aga og áræðni þess sem þær stundar. Frjálsar eru einstaklingsíþrótt svo að það er ekki undir neinum öðrum en manni sjálfum komið hvort maður nær árangri eða ekki. Þar fyrir utan eru frjálsar einfaldlega langskemmtilegasta íþróttin og það skiptir mestu máli!

Ertu jafn frábær í öðrum greinum:
Ó nei! Það eitt að reyna að hafa stjórn á bolta með fótunum einum saman hefur reynst mér ákaflega erfitt í gegnum tíðina og ég held að ég hafi oftar dottið um fótbolta en náð að sparka og hitta í bolta. Ég hef kraftinn í flestar íþróttir en fínhreyfingar og nákvæmni eru kannski ekki alveg mín sterkasta hlið, þannig að ballerínudraumurinn verður sennilega aldrei að veruleika.

Fyrsta Íslandsmetið:
Fyrsta Íslandsmetið mitt var í langstökki í flokki 11-12 ára stelpna, sett árið 2003. Reyndar er svolítið dramatísk saga á bak við það met. Ég keppti í Kópavogi og stökk þá 5.16 metra og setti þá að ég hélt mitt fyrsta Íslandsmet. Gleðin var að sjálfsögðu mjög mikil. En þegar heim var komið kom í ljós að metið fengi ekki að standa þar sem enginn vindmælir hefði verið í keppninni. Eins og gefur að skilja sárnaði mér töluvert en það stóð ekki lengi því stuttu seinna bætti ég metið aftur á unglingalandsmótinu á Ísafirði. Ég held að gleðin hafa bara verið ennþá meiri þá, enda alltaf skemmtilegt þegar maður uppsker eftir að hafa þurft að hafa fyrir hlutunum.

Hver er þín sterkasta grein:
Mér finnst afskaplega erfitt að svara þessari spurningu þar sem það er svolítið mismunandi eftir tímabilum. Ég segi því oftast að sjöþraut sé einfaldlega mín sterkasta grein.

Hvert er draumatakmarkið í stigum:
Draumurinn er að ná yfir 7000 stig í sjöþrautinni. Enn sem komið er beini ég þó augunum að 6000 stiga múrnum. Sumarið hefur verið svolítið erfitt meiðslalega séð. Ég glímdi við hásinameiðsli frá febrúar fram í júní og stuttu eftir að það varð viðunandi fór ég að finna fyrir eymslum í hamvöðvanum. Til að toppa allt fékk ég einnig svokallað „jumpers knee“.

Setja meiðslin öll þín áform úr skorðum:
Alls ekki. Meiðsli eru því miður óumflýjanlegur þáttur af því að leggja svona mikið á líkamann og í raun partur af því að vera afreksmaður í íþróttum. Svo lengi sem meiðslin stöðva mig ekki alveg í æfingunum og ég næ að halda við grunnþolinu og styrknum setja þau ekki svo mikið úr skorðum í heildina séð.

Eru Ólympíuleikarnir í London 2012 næsta draumamót:
Með því að komast inn á Ólympíuleikana myndi gamall draumur rætast og ég stefni þangað.

Mér skilst að þú sért með 11,0 í öllum námsgreinum:
Ha? Er hægt að fá 11 í skólanum? Það er greinilegt að ég þarf að fara að læra meira. En jú, að öllu gamni slepptu þá hefur mér gengið mjög vel að samræma skólann og æfingar og uppskorið eftir því.

Hvernig getur afrekskona íþróttum einnig verið afrekskona í skóla:
Nám og íþróttir fara mjög vel saman þar sem hvorutveggja krefst aga, skipulagningar og iðjusemi. Ég reyni ætíð að gera eins vel og ég mögulega get, sama hvert viðfangsefnið. Svo er maður ekki mikið að fara út á kvöldin þegar það er morgunæfing daginn eftir og því liggur beinast við að vera heim að læra í staðinn.

Hvernig nærðu að slaka á frá námsbókum og æfingum:
Með því að fara heim í sveit og láta mömmu stjana við mig, fara í fjárhúsin, labba úti í náttúrunni og klappa hundinum mínum. Mér finnst líka ótrúlega gott að fara í sund og það toppar ekkert baðstofuna í Laugum eftir erfiða æfingu.

Hvað þykir þér best að borða:
Mér finnst best að borða íslenskt lambakjöt og annan sveitamat á borð við slátur og svið. Þar fyrir utan finnst mér náttúrlega snilld að fá einhvern góðan kjúklinga- eða grænmetisrétt á Maður lifandi

Ertu með æfingar, hugarþjálfun og mataræði á hreinu:
Maður getur alltaf bætt sig á þessum sviðum og ég pæli mikið í þessum hlutum. Hugarþjálfun er orðin órjúfanlegur hluti af æfingarútínunni minni og ég pæli mikið í því hvað ég læt ofaní mig.

Hver er sérstaða Stebba Jó þjálfara:
Sérstaða Stebba Jó sem þjálfara er að hann hefur ótrúlegt auga fyrir tækni í hinum ýmsu greinum. Þannig sér hann oft tæknifeila sem enginn annar sér og svo kann hann allskonar trikk til þess að laga þessa tæknifeila.

Við hvaða aðstæður þarftu að búa á Íslandi hvað varðar stuðning til að komast á verðlaunapall á heimsmeistaramóti eða Ólympíuleikum:
Fyrst og fremst þarf ég að halda sjálfri mér heilli og ekki síst toppstykkinu þar sem hugarfarið spilar sífellt stærra og meira hlutverk eftir því sem lengra er komið. Þar fyrir utan þarf maður að búa við visst öryggi og vita að hverju maður gengur hverju sinni. Mér finnst frábærlega staðið við bakið á mér í dag, hvort sem það eru vinir, fjölskylda, þjálfari, æfingafélagar og svo allir þessir frábæru styrktaraðilar sem gera mér mögulegt að stunda íþrótt mína án þess að þurfa að hafa miklar fjárhagslegar áhyggur.

Mottó:
Þú gerir ekki betri fjárfestingu en í sjálfum þér!

Skemmtilegustu mismæli:
Í fljótu bragði man ég ekki eftir neinum. Það var þó ansi skemmtilegt þegar ég fór í kínverska nálastungu í vor og sagði að ég væri með mikil eymsli í hásin. Hann misskildi mig eitthvað blessaður enda talaði hann ekki mikla íslensku og því ætlaði hann að fara að stinga mig í hálsinn.

Fyrirmyndir:
Ólafur Stefánsson, Þórey Edda Elísdóttir, Vala Flosadóttir, Jón Arnar Magnússon, mamma, pabbi og síðast en ekki síst öll systkini mín.

Áhugaverðasta hrós sem þú hefur fengið:
Maður nokkur sagði að ég væri algjör eftirmynd föður míns, meira að segja með sama kúlurassinn. Mér fannst það ekki slæmt.

Hvaða fimm þekktum einstaklingum langar þig að verja með kvöldstund:
Ólafi Stefánssyni af því að hann er mín stærsta fyrirmynd og mikill viskubrunnur. Pétri Jóhanni Sigfússyni því maður þarf einfaldlega bara að horfa á hann til að fara að hlæja. Völu Flosadóttur því hún hefur afrekað það sem mig dreymir um að afreka. Guðrúnu Gróu Þorsteinsdóttur körfuboltakonu, af því að hún er svo skemmtileg og myndi sjá til þess að enginn færi svangur heim. Og að lokum Loga Ólafssyni fyrrum þjálfara KR og íþróttakennara í MH, einfaldlega vegna þess að hann er snillingur.

Borgartúni 24 105 Reykjavík
Sími: 585 8700

Opnunartími:
Virka daga kl. 9-20
Laugardaga kl. 11-17
Veitingastaður og verslun
Mikið úrval af lífrænum og náttúrulegum mat-, snyrti- og hreinlætisvörum, fæðubótarefnum og náttúrulegum lausnum.

Nýr matseðill og girnileg opnunartilboð.

Tökum fagnandi á móti þér.

Endilega fylgist með okkur á samfélagsmiðlunum okkar.