Hún hefur sett 41 Íslandsmet

Maður Lifandi er stoltur stuðningsaðili Ásdísar Hjálmsdóttur Íslandsmeistara og Íslandsmethafa í spjótkasti.

Ásdís sem var valin Íþróttamaður(kona) Reykjavíkur svarar hér nokkrum vel völdum spurningum frá Þorgrími Þráinssyni.

Spjótkastarinn Ásdís Hjálmsdóttir er ein mesta afrekskona Íslands. Hún er fædd 28. október 1985, ólst upp í Fossvoginum þar sem hún bjó þar til hún byrjaði í menntaskóla. Ásdís er með stúdentspróf frá MH og B.Sc. í lyfjafræði frá Háskóla Íslands þar sem hún er núna í mastersnámi.

Eftirminnilegast frá æskuárunum: Ég mun aldrei gleyma öllum prakkarastrikunum með Perlu vinkonu. Það er líka ógleymanlegt þegar ég ætlaði að fara að heiman þegar ég var svona 10 ára því ég var svo ósátt við foreldra mína. Ég kom heim köld og svöng klukkan 10 eða 11 sama kvöld.

Draumastarfið: Ég get nú ekki sagt annað en að það sé nákvæmlega það sem ég er að gera núna, að vera atvinnuíþróttamaður. Það er að sjálfsögðu ekki fyrir alla en mér finnst forréttindi að fá að gera það sem mér finnst skemmtilegast á hverjum degi, ferðast um allan heiminn, kynnast bestu íþróttamönnum í heimi og geta lifað á því.

Hvaða aðrar íþróttagreinar hefurðu prófað: Ég æfði badminton í 6 ár áður en ég skipti yfir í frjálsar en þar var ég margfaldur íslandsmeistari í unglingaflokkum og í unglingalandsliðinu. Ég prófaði líka margar fleiri íþróttagreinar í stuttan tíma eins og glímu, borðtennis, handbolta, fótbolta og tennis.

Fjöldi Íslandsmeta: Á ferlinum er ég búin að setja 41 Íslandsmet í kúluvarpi, kringlukasti og spjótkasti frá telpnaflokki (13-14 ára) og upp í kvennaflokk.

Lengsta kast: Lengsta kastið mitt í spjótinu er 61,37 m eins og staðan er í dag.

Hvert er draumatakmarkið í lengd og verðlaunum: Það hlýtur að vera draumur hvers íþróttamanns að standa efst á verðlaunapalli á stórmóti, horfa á fánann sinn fara upp og hlusta á þjóðsönginn. Hvað vegalengd varðar þá er 70 metra múrinn draumurinn og ég trúi því að ef allt gengur upp þá muni sá múr geta verið rofinn áður en skórnir fara á hilluna.

Helstu viðurkenningar: Íþróttamaður Reykjavíkur 2009, Frjálsíþróttakona ársins 2008 og 2009 og Íþróttamaður Ármanns 2004-2006 og 2008-2009.

Hvernig lýsirðu Stebba Jó þjálfara: Stebbi er hugulsamur, ljúfur og ótrúlega þrjóskur en það er nú líklega þess vegna sem hann er ennþá að þjálfa mig. Allt það sem hann hefur gert fyrir mig sem þjálfari í 9 ár er ómetanlegt. Hann hefur verið bæði bíll og bílstjóri í gegnum þetta allt saman og þurft að vera þjálfari, nuddari, læknir, sálfræðingur, vinur og pabbi. Hann ól mig upp í þessu og er búinn að koma mér þangað sem ég er komin í dag.

Hversu miklu máli skiptir mataræði: Mataræðið skiptir öllu máli, það er nú einu sinni það sem gefur orkuna til að takast á við allar þessar æfingar. Hvernig manni líður og hvernig maður er upplagður byggist að miklu leyti á því hvað maður er búinn að borða. Það klárar enginn erfiða fjögurra klukkustunda æfingu slappur eftir skyndibitamat.

Hversu margir tímar fara í æfingar á viku: Það er mjög misjafnt eftir árstíma en ég æfi til dæmis mun meira á uppbyggingartímabilinu á veturna heldur en á keppnistímabilinu á sumrin. Þegar mest er þá fer það í 26 klukkustundir á viku.

Óheppilegasta atvikið: Þar er af nógu að taka þar sem ég er algjör klaufi og frekar seinheppin yfirleitt. Ætli ég verði þó ekki að segja að reynsla sem ég lenti í fyrir stuttu standi uppúr. Ég var að keppa á Demantamóti í London og það hafði rignt mikið áður en keppnin byrjaði svo að spjótkastsbrautin var mjög blaut. Í öðru kastinu mínu lenti ég í polli og fæturnir renna undan mér með þeim afleiðingum að ég flaug á hausinn á Crystal Palace með tugi þúsunda áhorfenda á vellinum og Guð má vita hvað marga að horfa á í sjónvarpinu. Sem betur fer slasaðist ég ekkert í þessari flugferð og gat staðið upp aftur og kastað til að bjarga aðeins andlitinu.

Hvert er fallegasta sms sem þú hefur fengið: Tvímælalaust sms-ið sem ég fékk frá mömmu þegar elsta systurdóttir mín fæddist en ég er Guðmóðir hennar í dag og hún heitir í höfuðið á mér og pabba. Hún fæddist úti í Bandaríkjunum og rétt eftir að hún fæddist fékk ég sms með mynd af henni og fékk að vita nafnið hennar.

Hvað er það fallegasta sem þú hefur gert fyrir aðra: Það fallegasta sem margir hafa gert fyrir mig var að hafa áhrif á mig með einhverju sem þeir sögðu og þetta fólk veit í fæstum tilfellum af því. Eitt það fallegasta sem ég hef gert var þegar ég var svona 12 ára en þá handleggsbrotnaði mamma mín illa. Hún þurfti að fara í aðgerð og var rúmliggjandi í einhvern tíma og á meðan sá ég alveg um hana á meðan pabbi var í vinnunni og bakaði fyrir hana og ég veit ekki hvað og hvað.

Mottó: Winners never quit, quitters never win.

Eftirlætisbíómynd: Ég held ég verði að segja What’s love got to do with it sem fjallar um ævi Tinu Turner. Þetta er mynd sem ég get horft á aftur og aftur og í hvert einasta skipti dáist ég að kraftinum og baráttuviljanum í henni, því hún gafst aldrei upp.

Eftirlætisbók: Munkurinn sem seldi sportbílinn sinn vegna þess að hún fær mann virkilega til þess að taka til í höfðinu á sér og líta í eigin barm.

Hvað skapar afreksmenn: Það eru klárlega æfingar, æfingar og aftur æfingar enda held ég að ég geti fullyrt það að það hafi aldrei neinn orðið afreksmaður án þess að æfa eins og skepna.

Á hverju flaska flestir: Að rækta andlegu hliðina samhliða líkamanum. Þá er ég ekki endilega að tala um einhverjar mjög andlegar pælingar heldur bara að gera æfingarnar í huganum líka og sjá fyrir sér það sem maður ætlar að framkvæma.

Hvar sérðu þig eftir 10 ár: Á Ólympíuleikunum 2020.

Hverju myndirðu helst vilja koma til leiða á Íslandi: Markvissri afreksstefnu og betra stuðningsneti fyrir afreksfólk.

Hver er besta slökun frá sportinu: Að fara í heita potta eða gufu sem ég geri mjög mikið af, sérstaklega í World Class í Laugum.
Borgartúni 24 105 Reykjavík
Sími: 585 8700

Opnunartími:
Virka daga kl. 9-20
Laugardaga kl. 11-17
Veitingastaður og verslun
Mikið úrval af lífrænum og náttúrulegum mat-, snyrti- og hreinlætisvörum, fæðubótarefnum og náttúrulegum lausnum.

Nýr matseðill og girnileg opnunartilboð.

Tökum fagnandi á móti þér.

Endilega fylgist með okkur á samfélagsmiðlunum okkar.